Monday, February 19, 2007

Súlur himinsins, gangandi kirkjur

"... því að mátturinn fullkomnast í veikleika."
-2. Kor. 12.9

Undarlegir eru þeir, þessir
sem Guð hefur valið til að vera súlur himins á jörðu.
Máttvana og mislukkaðir,
flöktandi og órakaðir
staulast þeir um götur borganna;
samt eru þeir gangandi kirkjur!
Og lýðurinn fyrirlítur þá.

Að sjá úrhrökin,
að heyra í hræsnurunum!

Vefst oftast tunga um tönn
þegar þeir ætla að vitna um Undursannleikann
um veruleik og lifandi nálægð Guðs

rembast í eigin veika mætti
við að segja frá Sannleikanum
sem hefur svo oft heimsótt þá

þumbast í eigin þrjósku
við að segja frá Kærleikanum
yfirflæðandi sem elskar alla.

Samt eru það þeir
- hinir skrítnustu og minnstu meðal manna -
sem Guð hefur valið
til að bera ást sína og sannleik út um heiminn.

Og stundum,
stundum gerist kraftaverkið:
sjálfum er þeim vikið til hliðar
af ofurkrafti himnanna
og úr munni þeirra og augum
flæða orð og geislar Heilags Anda
sem ber heiminn uppi
og vitnar svo ómótmælanlega um himininn
að engin mótstaða fær staðist
eitt einasta blik,
eitt einasta orð

Ísak Harðarson- Hjörturinn skiptir um dvalarstað

0 Comments:

Post a Comment

<< Home