Thursday, April 05, 2007

Í nótt er ég í Getsemane

".....í Getsemane. Þar var maður um nótt að stríða í bæn. Hann bugaðist frammi fyrir þeirri skelfingu sem blasti við honum í myrkrinu. Hann fór að skjálfa, hann lét hugfallast. Nærstaddir vinir heyrðu slitrótt óp: Faðir, tak þennan bikar frá mér, láttu þennan kaleik fara framhjá mér, ég get ekki drukkið það eitur, sem mennirnir eru að byrla mér og þér og sjálfum sér. En ef ekki er annað hægt, ef þú veist enga aðra leið en að þola þetta, verði þá þinn vilji. Hann stóð upp frá bæn sinni. Og var þá orðinn sterkur, viss, einbeittur. Hljóður gekk hann síðan á vit afdrifa sinna, hinn eini öruggi og sterki af öllum sem koma við sögu hans í höllum valdsins, á torgi múgsins, á aftökustaðnum Golgata. Þeir eru margir, sem hafa bugast eins og hann, beðið eins og hann. Og margir, sem hafa fundið hann við hlið sína, þegar þeir fóru að skjálfa og láta hugfallast. Þeir heyrðu Guð segja: Ég veit og skil, ég veit hvað það er að horfa inni í myrkrið svarta. Þú bergir engu svo, að ég hafi ekki fyrri fundið, hvernig það er að tæma óbærilega ramma skál. Og vittu það, að ég sem ber synd og harma heimsins, ég breyti hverjum beiskum dropa, sem þú bergir með mér , í lyf til lífs, ódauðlegs, sigrandi lífs."

Sigurbjörn Einarsson, Haustdreifar

0 Comments:

Post a Comment

<< Home