Sumarnótt
Ljóðið er að mínu mati magnþrungið.
Björn Halldórsson prestur í Laufási er sagður hafa samið ljóðið nóttina fyrir giftingu sína á sumarmánuðum ársins 1852. Honum leið illa í hjónabandi og vildi ekki giftast. Hann var prestur og sjálfur prestsonur og átti síðar eftir að verða biskupsfaðir. Ekki er vitað hvers vegna Björn kveið svo komandi degi sem bar í skauti sér giftingarathöfn hans. Um þá spurningu er fjallað í Tímaritinu. Kannski var hann samkynhneigður, kannski hafði hann ekki áhuga á hjónabandi yfirleitt, eða var ástfanginn af annarri konu. Hver veit? Hann kveið allavega giftingardegi sínum sárlega og leið ekki vel í hjónabandi. Nóttina fyrir giftingu sína á hann að hafa samið þetta ljóð sem er ævintýralega vel gert. Lestu það hægt, af þunga og með athygli:
Sumarnótt
Dags lít ég deyjandi roða
drekkja sér norður í sæ;
grátandi skýin það skoða,
skuggaleg upp yfir bæ
þögulust nótt allra nótta,
nákyrrð þín ofbýður mér.
Stendurðu á öndinni af ótta
eða hvað gengur að þér?
Jörð yfir sofandi síga
svartýrðar lætur þú brýr.
Tár þín á hendur mér hníga
hljótt, en ég finn þau samt skýr.
Verður þér myrkvum á vegi
vesturför óyndisleg?
Kvíðir þú komandi degi,
kolbrýnda nótt, eins og ég?