Thursday, May 31, 2007

Sumarnótt

Ég vil birta hér alveg frábært ljóð sem ég sá fyrst í Tímariti Máls og Menningar.
Ljóðið er að mínu mati magnþrungið.

Björn Halldórsson prestur í Laufási er sagður hafa samið ljóðið nóttina fyrir giftingu sína á sumarmánuðum ársins 1852. Honum leið illa í hjónabandi og vildi ekki giftast. Hann var prestur og sjálfur prestsonur og átti síðar eftir að verða biskupsfaðir. Ekki er vitað hvers vegna Björn kveið svo komandi degi sem bar í skauti sér giftingarathöfn hans. Um þá spurningu er fjallað í Tímaritinu. Kannski var hann samkynhneigður, kannski hafði hann ekki áhuga á hjónabandi yfirleitt, eða var ástfanginn af annarri konu. Hver veit? Hann kveið allavega giftingardegi sínum sárlega og leið ekki vel í hjónabandi. Nóttina fyrir giftingu sína á hann að hafa samið þetta ljóð sem er ævintýralega vel gert. Lestu það hægt, af þunga og með athygli:

Sumarnótt
Dags lít ég deyjandi roða
drekkja sér norður í sæ;
grátandi skýin það skoða,
skuggaleg upp yfir bæ

þögulust nótt allra nótta,
nákyrrð þín ofbýður mér.
Stendurðu á öndinni af ótta
eða hvað gengur að þér?

Jörð yfir sofandi síga
svartýrðar lætur þú brýr.
Tár þín á hendur mér hníga
hljótt, en ég finn þau samt skýr.

Verður þér myrkvum á vegi
vesturför óyndisleg?
Kvíðir þú komandi degi,
kolbrýnda nótt, eins og ég?

Hvað veistu um stærðfræði?

Það má auðveldlega mæla með þessu myndbandi.

Gunnari Eyjólfssyni, læknanema er þakkað fyrir ábendinguna.

Wednesday, May 30, 2007

misgrip

Það er mikill munur á flatkökum. Til eru svokallaðar Úrvals-flatkökur. Þær eru blátt áfram bragðvondar.

Einnig eru til svokallaðar Selfoss-flatkökur. Það er vægast sagt góðar flatkökur og afbragðs matur. Rosalega eru þær góðar.

Mikið ofboðslega er mikill gæðamunur á flatkökum.
Ég skil í raun ekki hvernig Úrvals-flatkökur geta verið svona bragðvondar.
Ég vildi helst að það væri hætt að framleiða þær.
Ég keypti mér óvart Úrvalsflatkökur áðan fyrir misgrip.

Saturday, May 19, 2007

litlar spár rætast líka

Jæja, mín litla spá (sjá neðar) gekk eftir og rauða bindið á kjördag virðist hafa virkað. Kratar verða í næstu ríkisstjórn og er það vel.

Á tímabili sýndist mér vera góður möguleiki á samsteypustjórn Krata, Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins.
Síðan tók ég eftir því að Vinstri grænir höfðu fengið sér bæði kókaín og amfetamín daginn eftir kjördag. Þeir hegðuðu sér með þeim hætti að ég hefði ekki þorað að vera með þeim einn í herbergi, hvað þá að ég hefði treyst þeim í ríkisstjórn.

Nýr meirihluti tekur við. Kratar fá þar margt að segja og verður skemmtilegt að sjá þær umbætur sem við taka. Ég vona bara að þessir flokkar verði ekki svo miklir formælendur efnahagslegrar skilvirkni að menningin eigi sér hvergi griðaskjól. Því hvað er eftir ef allt er berstrípað niður í það að eiga bara að vera skilvirkt? Þá er gott að minna aftur á orð Karls Bretaprins, eða Prince Charles, eins og vinir hans kalla hann:

"The trouble, I think, in today’s world is we abandon so many things unnecessarily,
so often in the name of efficiency. If you make everything over-efficient, you suck out, it seems to me, every last drop of what, up to now, has been known as culture."

Á sama tíma er ég samt líka mikill unnandi efnahagslegrar skilvirkni.

Tuesday, May 15, 2007

þurfti að blogga

Ég hef reynt að halda í mér með að blogga þar til ríkisstjórn yrði mynduð.
En ég get það ekki.
Ég bara verð að blogga.

Vísindamenn segja að þetta sé ein af frumhvötum mannsins.

Saturday, May 12, 2007

Í kvöld...

í kvöld set ég upp fagurrautt bindi

mín litla spá

kratar verða í næstu ríkisstjórn.

Wednesday, May 09, 2007

endilega

Á föstudaginn flyt ég svokallaða lokapredikun.
Það mun eiga sér stað í kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, föstudaginn 11.maí kl. 15:00

Endilega komdu, ekki seinna en 15.00, hlustaðu á mig og fáðu kaffi og (kiwi)kökur á eftir.

Sumir segja að þetta sé besta leiðin til að slaka á í prófum.
Svo er ég líka nýkominn úr klippingu þannig að þetta gæti orðið mjög áhugavert allt saman.

Tuesday, May 08, 2007

Meira af nashyrningum

Stærstur hluti dýralífsmynda fjallar um stóru kattardýrin. Ég hef áhuga á nashyrningum. Þeir eru nær aldrei viðfangsefni dýralífsmynda.
Sem er skrýtið. Þetta eru merkileg dýr.

Friday, May 04, 2007

orð dagsins

Myndugleikahrörnun

Wednesday, May 02, 2007

Artist 4life

Ég held að listamenn séu að "spila mjög öruggan bolta" ef þeir passa að allt sem þeir geri sé með einhverjum hætti hægt að útskýra sem ádeilu á neyslusamfélagið.

Tuesday, May 01, 2007

UCC-auglýsingar

Mér finnst þessar auglýsingar vel gerðar. Mér skilst að forsetakandídatinn Barack Obama sé í þessari tilteknu kirkju. Ég væri síðan til að fá íslenska versjón af þessu.

Auglýsing 1

Auglýsing 2

Þakka Halldóri Elíasi fyrir ábendinguna. Þakka honum líka fyrir að hafa verið góður leiðtogi í Vatnaskógi, back in the days.