Þetta ljóð er úr ljóðabókinni Hvítur Ísbjörn eftir Ísak Harðarson.
Maður án höfundar(sbr. 1. Mósebók 3.23,24
og mynd Kjarvals, "Krítik)
Langt inni í manninum: Lífið
---og maðurinn ekki höfundur þess.
Enn standa Kerúbarnir vörð við hliðið
og lífið er hulið loga hins sveipanda sverðs
sem rökkuraugun þola ekki að sjá.
Í myrkrinu slær maðurinn saman hugsunum
að gleðja sig við neistana
sem minna hann á eitthvað
sem hann man ekki lengur hvað er.....
Djúpt inni í manninum: Veruleikinn
--- og maðurinn ekki íbúi hans
Englaverkstjóri með hvínandi samvisku
stendur yfir honum og knýr
til að strita og yrkja jörð og huga
brjóta niður og hlaða upp að nýju
orðum,hugmyndum,heimsveldum,rykir
og stynja: "Nei, það var ekki þetta....."
----og brjóta allt niður á ný
Innst inni í manninum: Sannleikurinn
----og maðurinn ekki kunningi hans.
Nöfnin og vörumerkin halda honum föngnum,
dáleiða hann af veggjunum og
dásyngja hann á torgunum: "Kauptu MIG
---án MÍN geturðu alls ekkert gert!"
Og prinsarnir tala hrífandi Kabárutfa
og stjörnurnar óma og ljóma. Nú rökkvar
um allan hinn kringlótta heim...
Hátt yfir manninum: Mannsmiðurinn
---og bíður og þráir og fylgist með honum,
Meðan maðurinn hrapar glóandi
órói niður himininn, dreginn
helþungri byrði sinni
mannstyttunni gullslegnu,
sjálfsmyndinni misheppnuðu
"Hinn fullkomni eilífi
maður án höfundar"